27.02.2024 18:43:15
|
Nova Klúbburinn hf. birtir uppgjör fjórða ársfjórðungs og ársins 2023
Sterkur vöxtur þjónustutekna skilar sér í hækkun EBITDA, auknum hagnaði og betra sjóðstreymi
Helstu niðurstöður á fjórða ársfjórðungi:
- Heildartekjur voru 3.327 m.kr. á fjórða ársfjórðungi 2023 samanborið við 3.354 m.kr. á Á samanburðarári tekjufærði félagið einskiptislið að fjárhæð 39 m.kr. vegna sölu eigna, leiðrétt fyrir því er 0,05% tekjuvöxtur á milli ára
- Þjónustutekjur námu samtals 2.424 m.kr. og vaxa um 3,4% á milli ára
- EBITDA nam 961 m.kr. samanborið við 978 m.kr. á sama tímabili á fyrra ári, EBITDA hlutfallið var 28,9% á fjórðungnum samanborið við 29,2% á fyrra ári
- Hagnaður fjórða ársfjórðungs var 182 m.kr. og hækkar um 3,9%
- Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum er 1.010 m.kr. samanborið við neikvætt 110 m.kr. á sama tímabili á fyrra ári
Helstu niðurstöður ársins 2023:
- Heildartekjur voru 12.993 m.kr. á árinu 2023 samanborið við 12.641 m.kr. á árinu 2022 og vaxa um 2,8% milli ára
- Þjónustutekjur námu samtals 9.734 m.kr. og vaxa um 6,8% á milli ára
- EBITDA nam 3.979 m.kr. og hækkar um 9,4% á milli ára, EBITDA hlutfallið var 30,6% á árinu 2023 samanborið við 28,8% á fyrra ári
- Heildarhagnaður ársins 729 m.kr. og hækkar um 35% milli ára
- Hagnaður á hlut var 0,19 krónur, samanborið við 0,15 krónur 2022
- Eiginfjárhlutfall félagsins var 40,04% og eigið fé nam 9.277 m.kr. í árslok
- Heildarfjárfestingar ársins 2023 voru 2.050 m.kr.
Margrét Tryggvadóttir, skemmtana- og forstjóri Nova:
"Við erum afskaplega stolt af niðurstöðu ársins 2023 og því uppgjöri sem við hjá Nova Klúbbnum erum að kynna. Við héldum áfram að fjárfesta í innviðum til að tryggja að við séum í forystu á markaðnum. Við höfum líka lagt verulega áherslu á að fjölga í hópi ánægðra viðskiptavina í farsíma- og netþjónustu, og það hefur tekist með því öfluga starfsfólki sem hjá Nova starfar.
Við sjáum þetta raungerast í ársreikningi félagsins en þjónustutekjur námu samtals 9.734 m.kr og hafa vaxið um 6.8% milli ára eða um 624 m.kr. EBITDA hækkaði um 9,4% frá fyrra ári og nam samtals 3.979 m.kr. á tímabilinu. EBITDA hlutfall tímabilsins er 30,6% samanborið við 28,8% á sama tímabili á fyrra ári. Rekstrarhagnaður (EBIT) hækkaði um 13,1% frá fyrra ári og nam samtals 1.826 m.kr. Hagnaður tímabilsins var 729 milljónir og hækkar um 190 milljónir frá fyrra ári sem nemur 35% hækkun.
Uppbygging fjarskiptainnviða er mikilvæg fyrir íslenskt samfélag og á síðasta ári voru fjölmörg mikilvæg verkefni framkvæmd. Uppbygging 5G hélt áfram og eru allir þéttbýlisstaðir yfir 400 íbúum nú með aðgang að 5G neti Nova og fjölgaði 5G sendum um 50% á árinu og voru 150 við árslok. Prófanir á 5,5G halda áfram og settum við íslandsmet í þráðlausum gagnahraða þar sem niðurhalshraði mældist 10 GÍG. Heildarfjárestingar voru yfir 2 milljarðar á árinu og teljum við að fjárfestingar muni lækka á þessu ári enda mörgum mikilvægum verkefnum lokið.
Margir aðrir sigrar hafa unnist á árinu, og eru nokkur atriði sem standa uppúr. Nova var fyrirtæki ársins í stærstu vinnustaðarannsókn á Íslandi og Nova sigraði Íslensku ánægjuvogina 15. árið í röð og er eina fyrirtækið í sögu ánægjuvogarinnar sem hefur unnið 15 ár í röð með marktækum mun. Nova liðið er lykillinn að öllum árangri félagsins. Vel heppnuð markaðssetning, góð þjónusta og forysta í innleiðingu nýjustu tækni hefur skilað Nova sterkri markaðshlutdeild og ánægðum og tryggum viðskiptavinum. Allir þessir þættir ásamt einstökum hópi starfsfólks hefur skilað félaginu miklum ávinningi og tekjuvexti undanfarin ár og er góður grunnur fyrir framtíðina.”
Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn miðvikudaginn 28. febrúar, kl. 8:30, hjá Nova, Lágmúla 9 á 4. hæð. Margrét Tryggvadóttir, skemmtana- & forstjóri, ásamt Þórhalli Jóhannssyni, fjármálastjóra, kynna uppgjörið og svara fyrirspurnum. Boðið verður uppá beint streymi sem hægt er að nálgast ásamt kynningarefni á heimasíðu Nova, https://www.nova.is/fjarfestar. Hægt er að senda inn spurningar á fjarfestatengsl@nova.is
Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:
Margrét Tryggvadóttir, skemmtana- & forstjóri, margret@nova.is, s. 770 1070
Þórhallur Jóhannsson, fjármálastjóri, thorhallurj@nova.is, s. 770 1090.
Attachments
- Nova Klúbburinn - Ársreikningur samstæðu 2023
- 64886J4FR973Q12HGS61-2023-12-31-is
- Nova Klúbburinn - Fréttatilkynning 4F 2023
- Nova Klúbburinn - Fjárfestakynning 4F 2023
Wenn Sie mehr über das Thema Aktien erfahren wollen, finden Sie in unserem Ratgeber viele interessante Artikel dazu!
Jetzt informieren!
Nachrichten zu Nova Klubburinn hf. Registered Shsmehr Nachrichten
Keine Nachrichten verfügbar. |